Dagur sjúkraþjálfunar

Þátttakendur í stefnumótunardegi FÍSÞ sem haldinn var 1. febrúar 2005 voru sammála um að nauðsynlegt væri að gera stéttina sýnilegri og auka samstöðu félagsmanna. Á vormánuðum auglýsti stjórn síðan eftir félagsmönnum sem gætu hugsað sé að sitja í framkvæmdanefnd fyrir þennan dag sem fyrirhugað væri að halda í byrjun febrúar

Ætlunin var að hrinda í framkvæmd árlegu viðburðaverkefni innan félagsins sem kallaðist Dagur sjúkraþjálfunar.
Niðurstaða félagsmanna sem unnu að stefnumótun FÍSÞ árið 2005 var sú að slíkur dagur væri kjörinn vettvangur til að miðla þekkingu, gera okkur sýnilegri út á við, ásamt því að stuðla að samstöðu og samvinnu sjúkraþjálfara.
Þessi dagur sjúkraþjálfunar á sér forsögu þar sem þann 28. mars 1998 var kröftug kynningarnefnd að störfum innan félagsins. Haft var samband við nefndir, hópa og deildir úti á landi og þeir beðnir um að móta hugmyndina með kynningarnefndinni. Dagurinn var vel heppnaður, básar í stórverslunum sunnanlands og norðan, þar sem fagið og námið var kynnt auk þess sem töluverð umfjöllun átti sér stað í fjölmiðlum.
Hugmyndin að þessum viðburði er svolítð frábrugðin þar sem hugsunin er að hafa þetta í líkingu við læknadaga þar sem faglegir fyrirlestrar og fræðsla bæði frá sjúkraþjálfurum og öðrum fyrirlesurum verði megin áherslan auk samverustundar í lok dags.
Hér til hliðar má sjá dagskrá þessara viðburða síðustu ára auk annarra upplýsinga.