2006

Dagur sjúkraþjálfunar 2006

Óhætt er að segja að Dagur sjúkraþjálfunar sem haldinn var þann 3. febrúar s.l. hafi hitt í mark. Mætingin fór fram úr öllum vonum og var nánast hvert sæti skipað. Það er ljóst að þetta var kærkomið tækifæri fyrir félagsmenn til að koma og hlusta á fróðleg erindi ásamt því að hitta aðra sjúkraþjálfara.
Dagurinn hófst með opnunarerindi Sivjar Friðleifsdóttur, sjúkraþjálfara og núverandi heilbrigðisráðherra þar sem hún fjallaði á hressilegan máta um mismunandi starfsumhverfi stjórnmálamannsins og sjúkraþjálfarans.
Dr. Ólöf Steingrímsdóttir sjúkraþjálfari kom frá Noregi til að segja kollegum sínum á klakanum frá doktorsrannsókn sinni um tengsl þreytu og vöðvaverkja. Í hinum lykilfyrirlestri dagsins kynnti Ágústa Guðmarsdóttir niðurstöður úr mastersverkefni sínu um líðan og vinnuumhverfi starfsfólks á leikskólum Reykjavíkur. Þess utan voru 13 aðrir fyrirlesarar með 20 - 30 mínútna erindi þar sem fjallað var um niðurstöður verkefna og rannsókna sem sjúkraþjálfarar á Íslandi hafa verið að vinna að. Spönnuðu þessi erindi fjölbreyttan starfsvettvang sjúkraþjálfunar. Dagurinn var síðan brotinn upp með hléum og hressilegri hreyfingu. Í lok dags nutu þátttakendur léttra veitinga, ljúfra tóna og ljómandi félagsskapar.

Það er alveg ljóst á þeim viðbrögðum sem við höfum fengið fram til þessa að við munum halda áfram að þróa umgjörð þessa dags og gera hann að öflugum vettvangi fyrir sjúkraþjálfara þar sem þekkingu er miðlað inn á við. Jafnframt þarf að huga að því hvernig við getum notað þennan dag betur til að koma þessari þekkingu okkar út til almennings.
Framkvæmdanefnd dagsins mun skoða með gagnrýnum augum hvernig undirbúningur og framkvæmd dagsins gekk fyrir sig. Niðurstöður könnunarinnar sem þátttakendur svöruðu um tilvist og tilurð dagsins verða einnig hafðar til hliðsjónar í skilamatsskýrslu framkvæmdanefndarinnar.
Stjórn og framkvæmdanefnd dagsins eru stolt yfir þessari uppákomu félagsins og vill þakka fyrirlesurum og þátttakendum fyrir jákvætt viðhorf og ekki síður skemmtilegan dag.

Auður Ólafsdóttir
Formaður FÍSÞ

Hér má sjá:

SKJÖL