2008

Dagur sjúkraþjálfunar 2008 var haldinn á Grand hóteli hlaupársdaginn 29. febrúar og var þetta í þriðjaskiptið sem slíkur dagur er haldinn með þessu sniði hér á landi. Dagurinn tókst mjög vel og þátttaka var góð, lætur nærri að 300 sjúkraþjálfarar hafi verið þarna samankomnir. Það má því segja að hefð sé komin fyrir þessum viðburði og að sjúkraþjálfarar alls staðar að af landinu hafi tilefni til að koma saman, sér til gagns og gamans.
Dagurinn hófst á áhugaverðum erindum Ingveldar Ingvarsdóttur sjúkraþjálfara og Philip Van der Wees sjúkraþjálfara frá Hollandi. Þau fjölluðu um kliniskar vinnuleiðbeiningar og minntu á að alltaf má nálgast þessar uppýsingar á netinu www.physio.is Sjúkraþjálfarafélög innan Evrópu hafa með sér samvinnu í þessum málaflokki.
Aðalfundur FÍSÞ var síðan haldinn og var mjögfjölmennnur. Greinilegt að félagsmenn taka daginn frá til að nálgast upplýsingar og fróðleik sem tengist faginu og félaginu. .
Dagsrká Dags sjúkraþjálfunar hófst formlega eftir hádegið með setningu Sigurðar Guðmundssonar landlæknis. Aðalfyrirlesari dagsins var Diana Lee, en hún fjallaði um verki í mjaðmagrind og mikilvægi þess að horfa heildrænt á vandamálið.
Dagskráin var síðan haldin í þremursölum í einu og voru fyrirlestrar fjölbreyttir og fróðlegir og vitna um metnaðarfullt starf stéttarinnar og grósku í tengslum við framhaldsnám og rannsóknir. Mikilvægt er að miðla þekkingu og voru allir fyrirlesarar reiðubúnir til að leggja sitt lóð á vogarskálarnar. Stjórn félagsins og framkvæmdanefnd kann þeim bestu þakkir fyrir.
Jafnframt viljum við þakka þeim fyrirtækjum sem styrktu daginn með því að kynna vörur sínar og þjónstu. Þetta voru fyrirtækin; A. Karlsson, Actavis, Artasan, Back on Track, EG skrifstofuhúsgögn, Eirberg, Icepharma, Kine, MBT skór, Nálastungur Íslands ehf, P. Ólafsson, Penninn, H. Lind ef. Stoð, Össur og Tort, innheimta slysabóta. Slíkur stuðningur er mikilvægur við framkvæmd dagsins og sjúkraþjálfarar fá á einum stað góða kynningu á þjónustu og nýjustu tækni og búnaði varðandi fagið og starfið.
Haukur Ingi Jónason guðfræðingur, sálgreinir og lektor við verkfræðideild HÍ flutti stórskemmtilegt lokaerindi, þar sem sjónum var m.a. beint að því ferli sem á sér stað í hópstarfi, hvort sem um tvo eða fleiri einstaklinga er að ræða.
Í lok dags var fundargestum boðið upp á léttar veitingar. Þar voru þremur félögum veitt viðurkenning fyrir sérfræðingsréttindi innan sjúkraþjálfunar, en það voru Róbert Magnússon sem hlaut viðurkenningu fyrir sérfræðingsréttindi í íþróttasjúkraþjálfun, Lonneke H W Van Gastel fyrir sérfræðingsréttindi í barnasjúkraþjálfun og Ragnheiður Harpa Arnardóttir sem hlaut sérfræðingsréttindi innan lungnasjúkraþjálfunar. Þegar kvölda tók nýttu sumir árgangar jafnframt tækifærið til að njóta samvista. .
Könnun var gerð meðal þátttakenda í þeim tilgangi að fá fram skoðanir á fyrirkomulagi dagsins, uppbyggingu og innihaldi. Yfirlit yfir álit þátttakenda verður kynnt á heimasíðu félagsins innan tíðar, en niðurstöður hennar er mikilvægt veganesti fyrir framkvæmdanefnd næsta árs.
F.h.. framkvæmdanefndar Dags sjúkraþjálfunar 2008,
Jóna Þorsteinsdóttir

 

SKJÖL