2014

Að loknum góðum degi sjúkraþjálfunar 2014.


Kæru félagsmenn – takk fyrir síðast.

Þá er lokið fjölmennasta Degi sjúkraþjálfunar sem við höfum haldið hingað til. Metþátttaka var að þessu sinni, yfir 350 sjúkraþjálfarar tóku daginn frá, lögðu daglegt amstur til hliðar og hittust til að fræðast, rifja upp, halda í gömul vinatengsl og mynda ný.
Dagskráin gekk eins og í sögu, sjúkraþjálfarar voru á iði að elta þann fyrirlestur sem hugnaðist þeim best hverju sinni og oft var erfitt að þurfa að velja á milli. Hléin inn á milli voru ekki síðri hluti dagsins, kliðurinn sagði til um það að hér voru vinir að hittast.

 

Viðurkenningar

Í lok dagsins voru veittar viðurkenningar af ýmsum toga og fyrir ykkur sem af einhverjum ástæðum áttuð ekki heimangengt, skal farið yfir það hverjir fengu þær:
Viðurkenningu fyrir að hafa hlotið sérfræðiréttindi í sjúkraþjálfun hlutu:

Guðný Jónsdóttir - Taugasjúkraþjálfun með stöðustjórnun sem áherslusvið
Hanna Björg Marteinsdóttir  - Barnasjúkraþjálfun
Þórður Magnússon - Íþróttasjúkraþjálfun


Um hvatningar- og þakkarviðurkenningu segir, að hana skuli veita þeim félagsmanni, sem hefur lagt á sig mikla vinnu fyrir félagið og verið til fyrirmyndar í þeim efnum.
Stjórn FS kom sér saman um að heiðra einstakling sem hefur lagt á sig mikla vinnu fyrir félagið, sem og mörg önnur og verið til fyrirmyndar á margan hátt. 
Framlag viðkomandi hefur verið áberandi í fjölmiðlum og konan er orðin þjóðþekkt fyrir störf sín.

Sú staðreynd að hér er um sjúkraþjálfara að ræða gefur okkur glögga mynd um að okkur eru allir vegir færir, menntun okkar er vönduð og við eigum erindi um víðan völl.

Hvatningaverðlaun ársins 2014 féllu í hlut Guðlaugar Kristjánsdóttur, formanns BHM, sem hefur áunnið sér traust langt út fyrir eigin stétt og sýnir að ungar konur, og sjúkraþjálfarar, geta valdið krefjandi embættum með sóma

 

Stjórn Vísindasjóðs afhenti átta styrki

Styrkveitingar úr Vísindasjóði Félags sjúkraþjálfara, 28.mars, 2014:

Anna Sólveig Smáradóttir, meistaranemi í Hreyfivísindum við Háskóla Íslands, fyrir verkefnið: „Áhrif sérhæfðrar jafnvægisþjálfunar á líkamsstarfssemi, athafnir og þátttöku fólks með MS sjúkdóm“.

Freyja Hálfdanardóttir, meistaranemi í Hreyfivísindum við Háskóla Íslands, fyrir verkefnið: „Áhrif Unloader spelku á vöðvavirkni, göngulag, einkenni og athafnagetu einstaklinga með slitgigt í hné“.

Margrét Brynjólfsdóttir, meistaranemi í Heilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri, fyrir verkefnið: „Eldri íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum: Athafnir, þátttaka og viðhorf til þjónustu“.

Monique van Oosten, meistaranemi í Lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands, fyrir verkefnið: „Áhrif hvíldaröndunar á einkenni og stjórnun astmasjúkdómsins“.

Bergþóra Baldursdóttir, doktorsnemi við Læknadeild Háskóla Íslands, fyrir verkefnið: „Jafnvægisstjórnun hjá einstaklingum sem hlotið hafa úlnliðsbrot í kjölfar byltu og áhrif skynþjálfunar“.

Þorgerður Sigurðardóttir, doktorsnemi við Læknadeild Háskóla Íslands, fyrir verkefnið: „Grindarbotnsáverkar og einkenni eftir fæðingu og snemmíhlutun með sjúkraþjálfun“.

Styrkveitingar úr Þýðingasjóði Félags sjúkraþjálfara, 28.mars, 2014:

Ólöf Ragna Ámundadóttir, doktorsnemi við Læknadeild Háskóla Íslands, fyrir þýðingu og bakþýðingu á: „Modified Barthel Index“ sem er röðunarkvarði sem metur getu/færni einstaklingsins í tíu athöfnum daglegs lífs. Í framhaldinu stendur til að áreiðanleikaprófa íslensku þýðinguna.

 

Vísindasjóði barst að þessu sinni góð gjöf. Tekin hefur verið sú ákvörðun að leggja niður minningarsjóð um kollega okkar, Guðlaugu Björgu Pálsdóttur, sem lést langt um aldur fram árið 1986. Það sem eftir er í sjóðnum, um 1,7 milljónir kr. hafa verið lagðar í vísindasjóð FS og kom bróðir Guðlaugar, Kristján Pálsson upp á svið og afhenti formanni FS gjöfina formlega. Eru honum og fjölskyldu Guðlaugar færðar bestu þakkir fyrir þetta miklsverða framlag. Þess ber að geta að stjórn Vísindasjóðs er falið að veita þessu fjármagni sérstaklega til rannsókna á sviði vinnuverndar og forvarna, en það voru helstu áherslusvið Guðlaugar innan sjúkraþjálfunar.

 


Eftir óvænt erindi atferlissálfræðings var Unnur Árnadóttir, sem hættir í stjórn félagsins kölluð upp á svið og heiðruð fyrir góð störf í þágu félagsins.

 

Að lokum var framkvæmdanefnd um Dag sjúkraþjálfunar kölluð upp á svið og þökkuð góð störf, en nefndina í ár skipuðu þau:

Steinunn A. Ólafsdóttir
Páll Vilhjálmsson
Guðný Björg Björnsdóttir
Ída Braga Ómarsdóttir
Andri Ford

 

Endað var á að kíkja í glas, tala meira og svo syngja saman. Eftir góðan tíma fóru svo hópar að tínast út, margir árgangar hafa komið sér upp þeim skemmtilega sið að hittast  á veitingastað eða í heimahúsum eftir daginn og hvetjum við svo sannarlega til þess.

Myndir af Degi sjúkraþjálfunar 2014 verða settar inn á fésbókarsíðu félagsins á næstu dögum.

 

Persónulega vil ég þakka kærlega fyrir mig. Framkvæmdanefndin stóð sig algjörlega frábærlega og dagurinn var í alla staði afar ánægjulegur.

Mínar bestu kveðjur til ykkar allra,
Unnur Pétursdóttir, formaður Félags sjúkraþjálfara.
unnur@physio.isSkjöl

Dagur sjúkraþjálfunar 2014 - dagskrá
Dagur sjúkraþjálfunar 2014 - ferðastyrkur - umsókn