2013

Haldinn 8. mars 2013

Að loknum góðum degi sjúkraþjálfunar 2013


 

Kæru félagsmenn – takk fyrir síðast.

Þá er lokið fjölmennasta Degi sjúkraþjálfunar sem við höfum haldið hingað til. Það er afar ánægjulegt í ljósi þess að þetta var fyrsti Dagur sjúkraþjálfunar nýs, sameinaðs Félags sjúkraþjálfara. Metþátttaka var að þessu sinni, 350 sjúkraþjálfarar tóku daginn frá, lögðu daglegt amstur til hliðar og hittust til að fræðast, rifja upp, halda í gömul vinatengsl og mynda ný. Sjúkraþjálfarar komu alls staðar frá af landinu þrátt fyrir vonda veðurviku og það fréttist af a.m.k. einum sem kom erlendis frá.


Morgundagskráin, sem að þessu sinni kom í stað aðalfundar, var einnig afar vel sótt, svo vel að það kom skipuleggjendum í opna skjöldu og færa varð dagskrána í stærri sal.


Dagskráin gekk eins og í sögu, sjúkraþjálfarar voru á iði að elta þann fyrirlestur sem hugnaðist þeim best hverju sinni og oft var erfitt að þurfa að velja á milli. Hléin inn á milli voru ekki síðri hluti dagsins, kliðurinn sagði til um það að hér voru vinir að hittast.

 

Viðurkenningar


Í lok dagsins voru veittar viðurkenningar af ýmsum toga og fyrir ykkur sem af einhverjum ástæðum áttuð ekki heimangengt, skal farið yfir það hverjir fengu þær:


Viðurkenningu fyrir að hafa hlotið sérfræðiréttindi í sjúkraþjálfun hlutu:
Andri Þór Sigurgeirsson - Taugasjúkraþjálfun.
Elís Þór Rafnsson - Íþróttasjúkraþjálfun.
Guðfinna Björnsdóttir – Öldrunarsjúkraþjálfun.
Guðný Björg Björnsdóttir - Greining og meðferð á hrygg og útlimaliðum,"manual therapy".


Um hvatningar- og þakkarviðurkenningu segir, að hana skuli veita þeim félagsmanni, sem hefur lagt á sig mikla vinnu fyrir félagið og verið til fyrirmyndar í þeim efnum. Þegar litið var til síðastliðins árs, var í  huga stjórnar engin spurning um að hvaða einstakling félagið myndi heiðra í ár. Og það var ekki einn einstaklingur, heldur þrír.
Í ár heiðruðum við þrjá aðila, sem hafa með þrotlausri vinnu náð lendingu sem við höfum beðið eftir í mörg ár. Þetta voru formennirnir þrír, sem hafa lagt nótt við dag síðustu misserin við að halda utan um sín félög, jafnhliða því að vinna að sameiningu félaganna í Félag sjúkraþjálfara, sem við öll tilheyrum í dag.

Þetta voru þau:
Haraldur Sæmundsson, formaður FSSS
Héðinn Jónsson, formaður FÍSÞ
Steinunn Arnars Ólafsdóttir, formaður SSÞ

Samkoman stóð upp þeim til heiðurs og klappið var langt og innilegt. Það duldist engum sem þarna var að þau eiga mikið þakklæti hjá félagsmönnum.

 

Stjórn Vísindasjóðs afhenti tvo styrki:
Sigrún Vala Björnsdóttir  hlaut styrk úr Vísindasjóði.
Þorgerður Sigurðardóttir hlaut styrk úr Þýðingarsjóði.

Að lokum voru stjórnarmenn allra stjórna félaga sjúkraþjálfara, sem láta af störfum, kallaðir upp á svið sem og framkvæmdanefnd um Dag sjúkraþjálfunar.


Endað var á að kíkja í glas, tala meira og svo syngja saman. Eftir góðan tíma fóru svo hópar að tínast út. Margir árgangar hafa komið sér upp þeim skemmtilega sið að hittast  á veitingastað eftir daginn, og heyrst hefur að aldrei áður hafi sést svona margir sjúkraþjálfarar á Slippbarnum...


Myndir af deginum eru á nýrri fésbókarsíðu félagsins og verða einnig settar inn á heimasíðuna.


Persónulega vil ég þakka kærlega fyrir mig. Framkvæmdanefndin stóð sig algjörlega frábærlega og dagurinn var í alla staði afar ánægjulegur.


Mínar bestu kveðjur til ykkar allra,
Unnur Pétursdóttir, formaður Félags sjúkraþjálfara.
unnur@physio.is

 Skjöl

Dagur sjúkraþjálfunar - dagskrá