04.09 2014

Alþjóðlegur dagur sjúkraþjálfunar er næsta mánudag, 8. september

Hinn 8. september ár hvert fagna sjúkraþjálfarar um allan heim alþjóðlegum degi sjúkraþjálfunar og nota hann til að draga athygli að framlagi sjúkraþjálfara til heilsu og vellíðunar einstaklinga og þjóða. Skilaboð alþjóðasambands sjúkraþjálfara þetta árið er að einstaklingar með fötlun og/eða langvinna sjúkdóma eigi rétt á að taka fullan þátt í þjóðfélaginu og að sjúkraþjálfarar skipti gjarnan höfuðmáli í því að gera fólki kleift að standa undir slagorðinu „Virkni til þátttöku“.

Kjörið er að gera sér dagamun á vinnustaðnum þennan dag, kaupa gott með kaffinu og klappa hvert öðru á bakið fyrir vel unnin störf. Lyftum andanum, stöldrum við og hugleiðum hvílík auðævi það eru sem við framleiðum með þjálfun og meðferð hvers einasta skjólstæðings sem fer um hendur okkar.

Heilsa er eitthvað sem fæst ekki keypt en er þó eitt það dýmætasta í heimi. Við aðstoðum fólk við að halda í og auka þau verðmæti. Það gerir okkur að afar dýrmætum starfskröftum!

Kæru sjúkraþjálfarar – til hamingju með alþjóðlegan dag sjúkraþjálfunar !


Unnur Pétursdóttir
Formaður FS.

Til baka