08.12 2014

Formaður hjá Velferðarnefnd Alþingis

 

Vinnuvika formanns hófst að þessu sinni hjá velferðarnefnd Alþingi. Efni fundarins var þingsályktunartillaga um fjarheilbrigðisþjónustu og þá möguleika sem í henni felast. Félag sjúkraþjálfara sendi inn umsögn um efnið, sem vakti næga athygli til að við vorum kölluð til þessa fundar.
 

Á fundinn mættu auk formanns FS, starfandi Landlæknir ásamt tveimur með sér, lækningaforstjóri Lsh, fulltrúi SÍS og aðilar frá heilsugæslunni á Kirkjubæjarkaustri, sem hafa verið í farabroddi í tilraunastarfi í þessum efnum.


Afar áhugavert var að fá að hitta velferðarnefndina og fjalla um möguleikana í fjar-heilbrigðisþjónustu, heyra hvaða hugmyndir aðrir höfðu og finna að hlustað var á okkar hugmyndir. Næsta skref er að kallað verður eftir fólki í stefnumótunarvinnu um málefnið.


PS: Það vantar sjúkraþjálfara á Kirkjubæjarklaustur/Vík – þarna er framsækið fólk að störfum. Er ekki einhver til í ný ævintýri?

Unnur P.

------------------------------------------------

Tillaga til þingsályktunar um aðgerðaráætlun til að efla fjarheilbrigðisþjónustu, 27. mál:
http://www.althingi.is/altext/144/s/0027.html

 

Umsögn Félags sjúkraþjálfara:
Dags: 7. nóv 2014
Heiti: Tillagu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun til að efla fjarheilbrigðisþjónustu.

 

Félag sjúkraþjálfara fagnar framkominni tillögu og telur að hér sé um þarft mál að ræða til eflingar heilbrigðisþjónustu, bæði í hinum dreifðu byggðum og um allt land.
Það sem Félag sjúkraþjálfara telur athugavert í tillögunum er hversu þröngt er litið á tækifærin til fjarheilbrigðisþjónustu. Þá er átt við að þótt talað sé um heilbrigðisstéttir, þá eru eingöngu nefnd til sögunnar læknar og hjúkrunarfræðingar, þegar farið er að útskýra tillögurnar.

Við bendum á að það er mikilvægt að efla fjarheilbrigðissþjónustu heildrænt og á þverfaglegum grunni og þá koma aðrar heilbrigðisstéttir á borð við sjúkraþjálfara einnig að málum. Sjúkraþjálfarar eru nú þegar farnir að beita fjarþjónustu í vissum tilfellum og slíkt mun örugglega fara vaxandi, sjá  http://www.apta.org/Telehealth/

Einnig er rætt um hinar dreifðu byggðir, en við teljum það engan veginn heppilegt að einskorða tillögurnar við dreifbýlið. Þéttbýli getur einnig haft mikinn hag af notkun fjarheilbrigðisþjónustu og nefnum við sem dæmi um slíkt eftirfylgd með notendum hreyfiseðils, sem fer fram rafrænt.

Að því sögðu endurtökum við ánægju okkar með að farið sé að huga að heildstæðri aðgerðaráætlun um fjarheilbrigðisþjónustu og treystum því að sjónarmið félagsins fái þar hljómgrunn.

 

Fh stjórnar Félags sjúkraþjálfara
Unnur Pétursdóttir
Formaður

 

Til baka