28.08 2014

Fræðslu- og kynningarbás á Reykjavíkurmaraþoni

Stjórn FS tók þá ákvörðun að prufa að vera með fræðslu- og kynningarbás á skráningasvæði Reykjavíkurmaraþons þann 23. ágúst sl. Veigur Sveinsson, varaformaður félagsins tók að sér að annast framkvæmdina og fékk til liðs við sig vaska sveit sjúkraþjálfara, sem starfað hafa með hlaupurum og íþróttafólki almennt.

Skemmst er frá að segja að tiltækið tókst með ágætum. Félagsmenn voru tilkippilegir að gefa stundarkorn af tíma sínum til að koma þekkingu sinni á framfæri og kynna sig svolítið í leiðinni og kunnum við þeim sem stóðu vaktina í básnum bestu þakkir fyrir.

Það virtist misjafn eftir tímum hvernig aðsóknin var að básnum og samkeppnin við gallharða sölumenn í nærliggjandi básum varð á stundum athyglisverð. Ýmsar hugmyndir komu fram hvernig hægt væri að gera þetta enn betur á næsta ári og þiggur stjórn allar slíkar ábendingar með þökkum.

Þetta tiltæki markar upphaf vetrar, sem mun bera þess merki að vera aðdragandi Dags sjúkraþjálfunar  í mars 2015, þar sem fagnað verður 75 ára starfsemi félagsins í Íslandi. Stjórn er þessa dagana að leggja línurnar um það hvernig við getum vakið meiri athygli á mikilvægi sjúkraþjálfunar fyrir landsmenn.

Við verðum að hafa það í huga að til að hafa áhrif verðum við að vera sýnileg !

Og til að vera sýnileg þurfa allir félagsmenn að leggjast á eitt og vera tilbúnir til að leggja sitt af mörkum, hvort sem er af eigin frumkvæði eða að taka jákvætt í beiðnir sem til þeirra koma, eins og þeir gerðu sem stóðu vaktina í básnum. Bestu þakkir til ykkar !

 

Unnur Pétursóttir
Formaður FS.

 

Til baka