19.06 2014

Göngudagur á Akureyri 19. júní

„Að brúka bekki“ er samstarfsverkefni félags eldri borgara á Akureyri og Félags sjúkraþjálfara á Norðurlandi. Verkefnið hófst 2010 með formlegri opnun tveggja gönguleiða þar sem um 200-250 metrar eru milli bekkja. Árið 2011 bættust við tveir bekkjarhringir. Markmiðið var að auka hreyfingu þeirra sem ekki treysta sér til að ganga langa leið án hvíldar. Í leiðinni er þetta samfélagsverkefni sem gerir fagið okkar sýnilegra. Bekkirnir eru merktir fyrirtækjunum sem gáfu þá en einnig félaginu okkar og Félagi eldri borgara á Akureyri. Bærinn skuldbatt sig til að vera með í verkefninu og sér um að moka stíga þar sem bekkirnir eru og viðhalda þeim. Bekkirnir eru úti árið um kring.

Í gær, 19. júní, var efnt til sérstaks göngudags til að minna á leiðirnar. Allar fjórar leiðirnar voru gengnar og fóru fulltrúar sjúkraþjálfara og fulltrúar frá Félagi eldri borgara á Akureyri fyrir göngunum. Mæting var góð en tæplega 40 manns gengu þessar leiðir. Veður var nokkuð gott, skýjað og nánast logn. Sest var á bekki og skrafað á leiðinni. Í lok göngu var boðið upp á smá hressingu frá bakhjörlum.
Í framhaldinu munu bæjarblöðin birta myndir úr göngunum og  kort líka til frekari kynningar.

Fh. Norðurlandsdeildar Félags sjúkraþjálfara
Jóhanna K. Kristjánsdóttir

Til baka