25.06 2014

Greinargerðir að beiðni lögfræðinga

Af gefnu tilefni er rétt að benda félagsmönnum á, að leiti lögfræðingar til þeirra varðandi greinargerðaskrif vegna skjólstæðinga fylgja því ákveðnar kvaðir og því þykir rétt að benda sjúkraþjálfurum á nokkur atriði. Athugið að ávallt skal samþykki skjólstæðings fylgja slíkri beiðni.


1. Hafa skal í huga tilgang greinargerðarinnar. Lögfræðingar hafa ekki mikið gagn af niðurstöðum einstakra mælinga og prófa, en þurfa hins vegar að fá vitneskju um áhrif slyss á vinnugetu, heilsufar, daglegt líf og ADL. Í flestum tilfellum er verið að nota þetta í bótamálum. Þeir þurfa því að fá að vita hvert ástandið er og hverjar horfurnar eru, hvort frekari bata sé að vænta eða hvort komið sé að endastöð í endurhæfingu.


2. Á Íslandi gilda lög um milliliðalausa sönnunarfærslu og munnlegan málflutning fyrir dómi, svo allar greinargerðir sem notaðar eru í dómsmálum þarf að staðfesta beint í dómstólum. Því er að gríðarlega mikilvægt að sjúkraþjálfarar séu meðvitaðir um það að ef þeir taka að sér að meðhöndla fólk eftir slys, geta þeir lent í því að þurfa ekki bara að skrifa greinargerð, heldur geta lent í því að þurfa að bera vitni um það fyrir dómi í eigin persónu.


3. Slysamál eru oft lengi í vinnslu og því koma beiðnir um greinargerðir oft löngu eftir að skjólstæðingur er útskrifaður frá sjúkraþjálfaranum, stundum svo löngu seinna að sjúkraþjálfarinn er jafnvel búinn að gleyma hver skjólstæðingurinn er. Því er afar mikilvægt að skráning og skýrslugerð sé í góðu lagi þannig að unnt sé að vinna upp úr fyrirliggjandi skriflegum gögnum þær upplýsingar sem verið er að leita eftir.


4. Félagsmenn eru hvattir til að vanda til greinargerða, hafa þær gagnlegar, hitmiðaðar og veita þær upplýsingar sem um er beðið. Slíkt kallar að sjálfsögðu á vinnu og því er sjálfsagt að reikningur fyrir þá vinnu fylgi með til lögfræðingsins. 

 

 

Unnur Pétursdóttir
Formaður FS.

Til baka