27.11 2014

Hollandsferð formanns FS

Í vikunni sótti formaður tvo fundi til Hollands. Fyrri fundurinn var svokallaður IMA- fundur, sem haldnir eru á 6 mánaða fresti á meðan á IMA verkefninu stendur.
IMA verkefnið gengur út á að þróa næstu kynslóð KINE tækjanna, með það fyrir augum að þar fái sjúkraþjálfarar í hendur notendavænt og fljótlegt tæki sem gefur nákvæmar og áreiðanlegar upplýsingar um hreyfingar og virkni vöðva (sjá www.imatec.is ).

Verkefnið er samstarfsverkefni FS, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, KINE, félaga sjúkraþjálfara í Hollandi og á Spáni, Sjúkraþjálfun Íslands, Maritim (sjúkraþjálfunarstofu í Valencia), IBV rannsóknarstofu í Valencia og hugbúnaður er unninn af PERA í Bretlandi. Verkefnið hlaut styrk frá Evrópusambandinu, sem þýðir að Félag sjúkraþjálfara ber engan kostnað af verkefninu. Ferðir formanns og annar kostnaður sem til fellur er alfarið greiddur af þessum styrk.

Staða verkefnisins nú er sú að prototýpan er á lokastigi og munu sjúkraþjálfunarstofurnar tvær, þ.e. Sjúkraþjálfun Íslands og Maritim fá þær til prófunar á vordögum. Talsverður tími mun þó líða enn þar til tækið kemst á almennan markað, en við hvetjum sjúkraþjálfara að fylgjast með framvindu mála.

Sett var mynd á facebook-síðu félagsins, þar sem við Ólafur Þór frá Sjúkraþjálfun Íslands höldum á einhverju sem líkist blikkandi jólatré og höfum við fengið nokkrar fyrirspurnir um hvað í ósköpunum þetta sé. Því er til að svara að þarna erum við með electróðurnar (6 stk), sem munu taka við af smelluelectróðunum í núverandi tækjum. Þær eru laufléttar, festast með sérstöku einnota límbandi, gefa ýmis ljósmerki eftir stöðu sinni og eru svo settar í þessa dokku til hleðslu á milli notenda. Þær munu geta gefið merki í gegnum léttan fatnað.
Sjá http://www.facebook.com/felag.sjukrathjalfara .

Þar sem fundurinn fór að þessu sinni fram í höfuðstöðvum hollenska félagsins (KNGF), var ekki hægt annað en að nota ferðina og kynna sér starfsemi þessa öfluga félags, sem fagnaði 125 ára afmæli fyrr á þessu ári. Annar sjúkraþjálfaranna, sem kemur að IMA verkefninu fyrir hönd KNGF, Sjoerd Olthof, tók á móti mér og kynnti mig fyrir nokkrum lykilstarfsmönnum félagsins. Á skrifstofunni vinna um 100 manns, auk þess sem þeir halda úti 5 svæðisbundnum skrifstofum sem hver er með 2-3 starfsmenn.  Félagsmenn þeirra eru 23.500, en starfandi í landinu eru um 30.000 sjúkraþjálfarar.

Starfsfemi félagsins er deildaskipt og hitti ég fólk úr útgáfudeild, félagaskrá (sem hefur það einnig á sinni könnu að reyna að ná til sjúkraþjálfara sem ekki eru félagsmenn), deild um kliniskar leiðbeiningar og tæknideild, svo eitthvað sé nefnt. Einnig hitti ég mann sem hefur þann eina starfa að "lobbýa" fyrir sjúkraþjálfun á hollenska þinginu og innan stjórnsýslunnar í Haag. Síðast en ekki síst fékk ég klukkustundar langan fund með framkvæmdastjóra KNGF, Rian Veldhuizen.

Hollenska félagið er án efa eitt alöflugasta félag sjúkraþjálfara á heimsvísu og hefur það dregið vagninn um margt, t.a.m. í þróun kliniskra leiðbeininga í sjúkraþjálfun.
Það var því verulega fróðlegt að fá innsýn í þá starfsemi sem þarna fer fram og ekki hægt að neita því að maður lét sig aðeins dreyma að heimsókn lokinni.

 

Mynd: IMA-hópurinn sem hittist í Hollandi. Fjórir Íslendingar, 2 Hollendingar, 5 Spánverjar og einn Breti.


26.nóvember 2014
Unnur Pétursdóttir
 

Til baka