02.01 2015

Nýárspistill formanns

Gleðilegt nýtt ár 2015 !

Runnið er upp afmælisár félagsins, talið frá stofnun forvera þess þegar nokkrar konur stofnuðu Félag nuddkvenna árið 1940. Félagsheitinu var síðar breytt í Félag íslenskra sjúkraþjálfara og nú síðast sameinuðust félög sjúkraþjálfara í eitt Félag sjúkraþjálfara. En ræturnar liggja aftur til ársins 1940 og því fögnum við 75 ára afmæli í ár.


Við eigum forvígismönnum fyrri áratuga margt að þakka. Framsýni þeirra á stórum tímamótum skipar íslenskum sjúkraþjálfurum nútímans í fremstu röð sjúkraþjálfara heims. Á meðan kollegar víða erlendis ströggla enn við að koma náminu á viðunandi menntunarstig og að koma á einhvers konar samningum við sjúkratryggingar sinna landa, erum við að koma okkar menntun á enn betri stað með masternámi og höfum haft samning við Sjúkratrygginar Íslands, eða forvera þeirra, frá árinu 1973.


Við lítum því björtum augum fram á veg. Ég tel að það hafi verið tvímælalaust gæfuspor að sameina félög sjúkraþjálfara í eitt fag-stéttarfélag árið 2013 og nú þegar starfsemin er farin að straumlínulagast eru tækifæri til að rétta úr sér, taka stöðuna og ganga til móts við ný verkefni faginu og sjúkraþjálfurum til eflingar.


Ný heimasíða lítur dagsins ljós þann 9. janúar nk. Það hefur verið ósk margra félagsmanna lengi að fá góða síðu sem veitir allar þær helstu upplýsingar sem félagsmenn leita eftir dags daglega á góðan og skilmerkilegan hátt. Einnig að námskeiðsskráning sé létt í umsýslan fyrir aðila fræðslunefndar og að síðan nýtist ekki bara félagsmönnum, heldur einnig almenningi til upplýsingaöflunar. Því skora ég á félagsmenn að nýta sér prófílsíðurnar til að kynna almenningi hvað þeir standa fyrir en einnig til að gefa kollegum betra tækifæri til að finna hvern annan og hafa samskipti sín á milli.


Á stefnumótunardeginum sem haldinn var þann 10. okt sl. var samhljóða ákall til forsvarsmanna félagsins að bjóða upp á umræðu innan félagsins um það hvernig við getum nýtt menntun okkar á fjölbreyttan hátt og horft í nýjar áttir, hugað að nýjungum og nýsköpun. Ekki er eftir neinu að bíða í þeim efnum og verður slíkt umræðusíðdegi föstudaginn 23. janúar nk. Fengnir verða nokkrir aðilar sem hugsa út fyrir boxið til að halda framsögu og svo vonumst við til að fjörleg umræða skapist meðal þátttakenda.


Þann 6. mars verður síðan blásið til hinnar eiginlegu afmælishátíðar félagsins. Þá verður haldinn hefðbundinn Dagur sjúkraþjálfunar, en í tilefni afmælisins verður hann að þessu sinni haldinn í Hörpunni og afmælisfagnaður í beinu framhaldi af formlegri dagsrká. Sérstakur gestur okkar í tilefni afmælisins verður Dr Emma Stokes, varaforseti og tilvonandi forseti heimssambands sjúkraþjálfara, WCPT.


Aðrir viðburðir vorannar eru endurvakning faghóps um íþróttasjúkraþjálfun, fundur sem haldinn verður í febrúar og auglýstur síðar, vísindaferð verður á sínum stað að ógleymdum fjölmörgum metnaðarfullum námskeiðum fræðslunefndar.


Á afmælisári skora ég á félagsmenn að láta ekki ljós sín undir mæliker, heldur flagga þeim hvar og hvenær tilefni er til. Vekjum á okkur athygli í fjölmiðlum, samfélagsmiðlum, í nærumhverfi okkar, alls staðar þar sem okkur dettur í hug. Við höfum margt fram að færa og þekking okkar og reynsla á erindi víða. Deilum efni af facebook-síðu félagsins á eigin síður og bjóðum vinum okkar (sérstaklega heilsbrigðismenntuðum) að líka við félagssíðuna.


Í lokin vil ég þakka félagsmönnum fyrir liðið ár. Það hefur verið gífurlega annasamt, lærdómsríkt, skemmtilegt, oft snúið en upp úr standa þau fjölmörgu ánægjulegu samskipti sem ég hef átt við félagsmenn víða um land. Þar hef ég  fengið að skyggnast inn í starfsemi fjölmargra staða og átt þátt í að þoka hlutum til betri vegar, bæði faglega og kjaralega.

 

Með nýjárkveðju,
Unnur Pétursdóttir
Formaður FS.

Til baka