11.09 2014

Þar sem framboð og eftirspurn eftir hreyfingu mætast

 

Nú í vetrarbyrjun, þegar fólk er að leita sér að hreyfingu, eru allir þeir sem standa fyrir þjálfun eða hreyfingu eindregið hvattir að skrá það á vefinn www.hreyfitorg.is . Að sama skapi eru þeir sem leita að hreyfitilboðum fyrir sig eða skjólstæðinga sína hvattir til að nýta sér vefinn.

 

Helsta heilbrigðisvá samtímans og framtíðar eru lífstílssjúkdómar. Þeir eru lúmskir og læðast að fólki á löngum tíma. Hins vegar er hægt að minnka líkurnar á því að fá slíka sjúkdóma með tiltölulega auðveldum og ódýrum hætti.

Sjúkraþjálfarar og fleiri hafa um margra ára skeið bent á mikilvægi þess að sporna við þróun lífsstílssjúkdóma með reykleysi, hollu mataræði að ógleymdri hreyfingunni.

Almennt hreyfingarleysi landsmanna er hverjum sjúkraþjálfara augljóst, en þegar kemur að því að bæta úr því getur verið snúið er að finna hreyfingu sem hentar fólki sem hefur lítið sem ekkert hreyft sig, jafnvel áratugum saman. Líkamsræktarstöðvar bjóða vissulega uppá ýmsar leiðir til þjálfunar, en gjarnan er hún of erfið fyrir byrjendur og slíkar stöðvar hafa í augum margra lítið aðdráttarafl.

En hvar er eitthvað annað að finna? Vitað er að fjölmargir aðilar bjóða upp á ýmis konar þjálfun og hreyfingu. Gönguhópar, stafgönguhópar, skógarganga, jóga, vatnsleikfimi, línudans og leikfimi sem tekur mið af alls kyns skrokkskjóðum er víða í boði, en snúið getur verið að finna.

Því var brugðið á það ráð að stofna sameiginlega vefsíðu þar sem allir þessir aðilar geta skráð hreyfitilboð sín án kostnaðar og þeir sem leita þjónustunnar geta fundið það sem er í boði á einum stað.


Þetta er www.hreyfitorg.is , samstarfsverkefni Félags sjúkraþjálfara, Læknafélags Íslands, Landlæknis, Íþróttakennarafélags Íslands, ÍSÍ og fleiri aðila. Vefurinn fór í loftið sl vetur og er að sækja í sig veðrið en aðilar vonast eftir því að hann verði vettvangurinn þar sem framboð og eftirspurn eftir hreyfingu mætast.


Nú í vetrarbyrjun, þegar fólk er að leita sér að hreyfingu, eru allir þeir sem standa fyrir þjálfun eða hreyfingu af ofangreindu tagi eindregið hvattir að skrá það á vefinn. Að sama skapi eru þeir sem leita að hreyfitilboðum fyrir sig eða skjólstæðinga sína hvattir til að nýta sér vefinn.

 


Unnur Pétursdóttir
Formaður Félags sjúkraþjálfara
 

Til baka