18.09 2014

Varstu að ráða þig í vinnu ?

 

Nú á haustdögum er við hæfi að minna á mikilvægi þess að vera með skriflegan samning milli vinnuveitanda og starfsmanns. Þetta á við hvort sem um er að ræða launþegavinnu eða verktöku.

 


Ráðningasamningur skal innibera skilgreiningu á því starfi sem ráðið er í, stutta starfslýsingu og skilgreiningu á því eftir hvaða kjarasamningi er greitt. Gera skal grein fyrir starfshlutfalli og hvar viðkomandi raðast í launatöflu. Uppsagnarákvæði fara skv. viðkomandi kjarasamningi. Vinnuveitandi á að standa skil á kjaradeildargjaldi til félagsins.

Ráðlegt að að fara yfir það að greitt sé í viðeigandi sjóði BHM, þ.á.m. starfsþróunarsetur og kynnið ykkur hvaða styrki þið getið fengið og hvaða réttindi þið hafið þar.

 

Í samningi verktaka er nauðsynlegt að gera grein fyrir því hvað innifalið er í leigugjaldi, mtt. aðstöðu, tímasetninga og aðstoðar starfsmanna (ss. móttökuritara, aðstoðarfólks). Skjalfest þarf að vera hvernig leigan er reiknuð út og taka þarf fram ákvæði eins og hvort greitt er jafnt alla daga ársins, eða hvort um sé að ræða „aðstöðugjaldsfría“  daga, og þá skv. hvaða skilyrðum. Kostnaður vegna tölvukerfis og hver eigi sjúkragögn þarf að vera á hreinu, og uppsagnarákvæði samningsins þurfa að vera skýr á báða bóga. Æskilegt er að það sé einnig gengið frá því hvernig brugðist er við ónógu flæði skjólstæðinga eða ofgnótt.

Mikilvægt er að vera með tryggingar í lagi.

Verktaki þarf sjálfur að standa skil á kjaradeildargjaldi sínu, sjá leiðbeiningar á vefsíðu félagsins. http://vu2050.ispcp-01.zebra.is/felagid/log_og_reglur/ -> greiðslur kjaradeildargjalda – verktakar.

Verktakar hafa einnig aðgang að flestum sjóðum BHM og eru hvattir til að kynna sér kosti þess að vera í þeim.

 

Ýmislegt annað en ofantalið getur verið æskilegt að hafa skjalfest og fer það eftir eðli starfseminnar hvað það gæti verið.  

 

Það er allra hagur að starfsumhverfi sé öllum skýrt og aðilar hafi sama skilning á því til hvers er ætlast, bæði vinnuveitendur og starfsmenn.

Gætið þess að halda þessum skjölum til haga og varðveitið á traustum stað !

Unnur Pétursdóttir
Formaður FS
 

Til baka