13.11 2014

Viðreisn í heilbrigðiskerfinu

Varaformaður félagsins, Veigur Sveinsson,  sótti þennan fund, sem  haldinn var að tilstuðlan Viðreisnar, sem eru stjórnmálasamtök sem Benedikt Jóhannsson og fleiri eru í forsvari fyrir.


Þarna voru um 80 manns, læknar, fólk úr stjórnkerfinu, forsvarsmönnum á almennum vinnumarkaði ásamt ýmsum öðrum. Þrír frummælendur voru á dagskrá.

 

Fyrstur var Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans og vakti hann athygli á að við erum að setja 8.9% af vergri landsframleiðslu í heilbrigðiskerfið, en Þýskaland er t.a.m. að setja 11.3%. Þessi tvö lönd eru með sambærilegar árstekjur pr landsmann (45.000 USD). Einnig er þetta hlutfall nánast undantekningalaust lægra heldur en gengur og gerist í löndum í kringum okkur. Að hans mati ættum við að stefna á að setja 10% af VLF í heilbrigðisgeirann.

 

Önnur var Tinna Laufey Ásgeirsdóttir hagfræðingur og ræddi um heilsu, peninga og pólitík.
Hennar útgangspunktur var að ,,ákvarðarnir verði teknar sem byggjast á upplýsingum“, og að ,,Beina fjármagninu þangað sem við fáum sem mest fyrir hverja krónu.“

Hugleiðing: Til að hægt sé að taka ákvarðanir byggðar á upplýsingum þurfa upplýsingarnar að liggja fyrir. Hvar liggja fyrir upplýsingar um árangur meðferðar sjúkraþjálfara? Það er ekki nóg að þær séu í kollinum okkar. Þær þurfa að rata í skýrslur, dagnótur og rannsóknaniðurstöður !  En að því gefnu að upplýsingarnar séu aðgengilegar, þá ætti líka að koma í ljós að stjórnvöld fá mikið fyrir hverja krónu sem sett er í endurhæfingu.

Tinna nefndi varðandi læknaskort og álag á lækna að ísl væru hjúkrunarfræðingar vel menntuð stétt sem gætu tekið yfir nokkur verk sem væru á hendum lækna.

Hugleiðing: Sjúkraþjálfarar eru einnig vel menntuð stétt sem klárlega getur komið sterk inn varðandi marga þætti tengda t.d. stoðkerfisverki og ákveðnum lífstílssjúkdómum. Sjúkraþjálfarar í heilsugæsluna er nauðsyn!

 

Síðastur var Ólafur augnlæknir í Sjónlagi og ræddi um einkarekstur. Hann taldi að hlutfall rekstrarforms heilbrigðiskerfisins væri 80% ríkisrekið og 20% einkarekið. Hann telur mikilvægt að í heilbrigðiskerfinu sem samvinna milli rekstarforma því slíkt tryggi fjölbreytni og nýtingu undirsérgreina auk þess sem hagræðing fylgi útboðum og samkeppni.

Að lokum nefndi hann varðandi kostnað samfélags, hver er ábyrgð samfélagsins og hvar liggur ábyrgð einstaklings þegar kemur að lífsstílssjúkdómum þar sem hegðun hefur talsvert um þá að segja.

 


Hugleiðingarnar eru formannsins,
Unnur Pétursdóttir
Formaður FS.

Til baka